Tvö ný hringtorg í smíðum
Framkvæmdir standa yfir um þessar mundir við hornið á Hafnargötu og Flugvallarvegi, eins og vegfarendur í Reykjanesbæ hafa eflaust orðið varir við. Framan við nýtt útibú KB banka er unnið að breikkun Flugvallarvegar, sem er fyrsti áfangi að svokallaðri Þjóðbraut sem liggja mun upp að Reykjanesbraut.
Á þessu horni verður einnig komið fyrir hringtorgi þannig að umferð þar ætti að verða mun greiðari í framtíðinni. Þá eru lóðarframkvæmdir komnar í fullan gang vegna fyrirhugaðrar húsbyggingar Glitnis andspænis horninu en fyrirtæki eru í auknum mæli farin að horfa til þeirra kosta sem staðsetning á þessu svæði hefur í för með sér. Gert er ráð fyrir að framkvæmdum við breikkun götunnar og hringtorgið verði lokið um miðjan desember, að sögn Viðars Más Aðalsteinssonar, forstöðumanns Umhverfis- og skipulagssviðs Reykjanesbæjar.
Þá standa yfir framvæmdir við nýtt Hringtorg á horni Iðavalla og Aðalgötu, sem vonandi ætti að auka umferðaröryggi á þessum stað en löngum hefur verið kvartað yfir því hver “blint” umrætt horn er. Vegna framkvæmdanna hefur undanfarið hefur ekki verið unnt að aka inn á Iðavellina nema frá Flugvallarvegi. Þá er Aðalgata einnig lokuð við Reykjanesbraut. Framkvæmdum við þetta hringtorg á einnig að ljúka 15. desember.
Mynd: Frá horni Flugvallarvegar og Hafnargötu. Eins og þessi mynd ber með sér er breikkun götunnar umtalsverð.
VF-mynd:elg