Tvö brunaútköll í nótt
Slökkvlið Brunavarna Suðurnesja var í tvígang kallað út síðastliðna nótt. Í öðru tilvikinu hafði verið tilkynnt um reyk í fjölbýlishúsi á Ásbrú. Reykurinn reyndist vera gufa frá þurrkara. Í hinu tilvikinu fór slökkviliðið að gömlu steypustöðinni á Vellinum þar sem einhverjir höfðu verið að leika sér að flugeldum. Eldur logaði á gólfi hússins þegar slökkvilið bar að. Húsinu var lokað fyrir nokkru. Það virtist þó ekki hindra menn í að fara þar inn í nótt.
Að sögn vaktstjóra hjá BS var jólahátíðin með rólegu móti. Fyrir utan venjulega sjúkraflutninga bar lítið tíðinda.