Tvö börn á viku fæðast á Suðurnesjum
– 104 af 312 Suðurnesjabörnum fæddust á HSS
Mikið hefur dregið úr fæðingum á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja eftir að skurðstofum stofnunarinnar var lokað árið 2010. Á síðasta ári fæddust 104 börn á fæðingardeildinni í Keflavík. Hins vegar eru 312 börn fædd á árinu 2014 í ungbarnaeftirliti á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja þannig að 208 börn eru fædd utan Suðurnesja. Það er því aðeins þriðjungur Suðurnesjabarna sem eru fædd á Suðurnesjum en að jafnaði fæðast eingöngu tvö börn á Suðurnesjum á viku.
Auk þeirra 104 barna sem fæddust á Suðurnesjum á síðasta ári þá byrjuðu 34 aðrar fæðingar á Suðurnesjum en mæðurnar voru svo fluttar á kvennadeild Landspítala þar sem börnin fæddust.
Fæðingar á Suðurnesjum voru 20 fleiri í fyrra en árið 2013 þegar aðeins 84 börn voru fædd á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Hins vegar voru fæðingarnar hér 138 árið 2011. Það ár fæddust aðeins 244 Suðurnesjabörn og því var hlutfall barna fæddra á Suðurnesjum 57% árið 2011 á móti 33% í fyrra.