Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Tvísýnar kosningar fyrir Sjálfstæðisflokkinn
Föstudagur 28. maí 2010 kl. 15:47

Tvísýnar kosningar fyrir Sjálfstæðisflokkinn


„Mín tilfinning er sú að þetta verði tvísýnar kosningar, allavega fyrir Sjálfstæðisflokkinn,“ svarar Ellert Eiríksson um það hvernig hann meti stöðuna fyrir kosningarnar í Reykjanesbæ á morgun.  „Ég held nú að hann hafi það af að halda sex mönnum. Hann tapar einum manni og töluvert af atkvæðum frá síðustu kosningum en heldur sjötta manninum,“ segir Ellert. Eins og flestir vita er Ellert gamall reynslubolti úr pólitík, var áður oddviti Sjálstæðisflokksins í Reykjanesbæ þar sem hann gengdi stöðu bæjarstjóra í tólf ár. Þar á undan var hann sveitarstjóri í Garði í átta ár.

Ellert hefur starfað með félögum sínum í kosningabaráttunni og m.a. sinnt úthringingum í unga kjósendur. „Það er ekkert verra hljóðið í þeim í dag heldur en var í síðustu kosningum og mörgum þar á undan. Það er bara nákvæmlega sami tóninn í þeim í dag og var þegar maður hringdi og ræddi við pabba þeirra og mömmu fyrir 20 árum. Það er sami hrynjandinn í þessu og áður, - sumir eru ákveðnir í hvað þeir ætla að gera, aðrir eru ekki búnir að gera upp hug sinn en flestir ætla á kjörstað að kjósa,“ segir Ellert. Hann útlokar ekki að kjörsókn verði almennt dræmari en þetta sé allavega það sem hann heyri í samtölum við unga kjósendur sem eru kjósa í fyrsta skipti. „Ég er ekkert að hringja í þá sem ég þekki því þá lendir maður bara á kjaftatörn,“ segir Ellert og hlær.

Margir tala um að aðdragandi kosninganna núna séu öðruvísi en áður og kosningabaráttan hafi farið seint af stað. Ellert tekur undir að hún sé lágstemmdari.
„Þá metur maður það kannski líka út frá auglýsingum í fjölmiðlum og öðru slíku. Það magn er miklu, miklu minna. Einnig erum við nýbúinn að ganga í gegnum þjóðaratvæðagreiðslu um Icesave og það minnkar kannski eftirspurnina eftir kosningum. En ég verð ekki var við að stemmningin sé eitthvað lakari núna. Eins og svo oft áður nær þetta flugi í síðustu vikunni og þá er eins og stór hluti kjósenda fái einhvern áhuga.“

-En þú hefur góða tilfinningu fyrir gengi Sjálfstæðisflokksins?

„Já, en sjálfstæðismenn verða að hafa fyrir því alveg fram á síðustu mínútu. En ég hef þá tilfinningu að við veltum þessum sjötta manni inn en það verður ekki með miklum meirihluta atkvæða. En við töpum einum manni og það hefur legið fyrir lengi. Þetta voru mjög óvenjulegar kosningar síðast. Þá var t.d. enginn Framsóknarflokkur í boði og þeir koma ábyggilega þokkalega út núna miðað við gengi hans á undanförnum árum“.

---

Mynd - Ellert Eiríksson, fyrrum bæjarstjóri og oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024