Tvímenntu á rafmagnsvespu
Lögreglan á Suðurnesjum stöðvaði í vikunni tvo unga pilta sem tvímenntu á rafmagnsvespu. Þeir sögðust ekki hafa vitað að bannað væri að vera með farþega á slíku farartæki. Ætlaði annar þeirra fótgangandi heim, en hinn að aka hjólinu. Haft var samband við foreldra drengjanna og þeim sagt frá atvikinu.
Nokkuð hefur verið um að afskipti hafi verið höfð af unglingum að undanförnu, sem hafa verið að reiða félaga sína á rafmagnsvespum. Lögregla hvetur forráðamenn barna og unglinga að brýna fyrir þeim að slíkt sé óheimilt. Auk þess skal öryggisbúnaður vera í lagi.