TVF kemur út á morgun - aldrei betra!
Fjórða tölublað TVF-tímarits Víkurfrétta kemur út á morgun og hefur aldrei verið fjölbreyttara.Meðal efnis má nefna viðtal við Bryndísi Jónsdóttur úr Keflavík er hún kona vinsælasta leikara landsins, Hilmis Snæs Guðnasonar. Gunnleifur Gunnleifsson er heitasti markvörður landsins. Hann hefur lifað tímana tvenna og segir okkur frá skuggahliðum lífs síns sem vörðu hans unglingsár. Berglind Richardsdóttir er aðeins 26 ára gömul og hefur eignast sex börn. Hún segir frá nýjum manni í lífi sínu og barnafjöri. Ásdís Jóhannesdóttir dúxaði meira en sögur fara af í Fjölbrautaskóla Suðurnesja í vor. Hún segir okkur frá leyndardómnum á bakvið góðan námsárangur og hvert hún er að fara. Elíza Geirsdóttir er tónlistardrottning Suðurnesja og Bellatrix heitasta bandið, meira að segja á Bretlandseyjum. Hún er komin með nýjan breskan kærasta og segir okkur sögur af tónleikaferðum sínum. Eiríkur Árni Sigtryggson er listamaður og tónlist er honum í blóð borinn. Hann skrapp til Máritíus þar sem umhverfið er eins og í flottu bíómyndunum og fann eiginkonuna í paradís.Siggi Valla er guðfaðir körfuboltans í Keflavík eins og allir vita. Hann fékk Ameríkuferð í afmælisgjöf fyrir dugnað tuga ára og fór og hitti goðið sitt Magic Johnson. Agota Joó og Vilberg Viggósson segja okkur frá lífinu í tónlistinni og þá eru tíðindi og myndir frá nýrri glæsistúku fótboltans í Grindavík, fimmtugsafmælum, brúðkaupum, skemmtikvöldum og mörgu, mörgu fleiru.