Tveir vopnaðir sérsveitarmenn ruddust inn í bílskúr í Grindavík
Þurfti miklar fortölur að fá að pissa í friði fyrir fljúgandi dróna
„Þegar ég kom út í bílskúr, voru tveir sérsveitarlögreglumenn, ógnandi með hríðskotabyssu á öxlunum,“ segir Grindvíkingurinn Örn Sigurðsson en hann lenti í ótrúlegu atviki ásamt syni sínum eftir fyrri rýminguna í nóvember og lenti aftur í sérsveitinni í dag.
Örn og sonur hans fóru við fyrsta tækifæri inn í Grindavík til að vitja eignar sinnar og sækja dót. „Ég skal bara segja þér þessa sögu nákvæmlega eins og hún gerðist. Í einni af þessum skeiðklukkuferðum sem okkur Grindvíkingum var gert kleift að vitja eigna okkar, með björgunarsveitarfólk með okkur og við höfðum heilar fimm mínútur, fór ég með syni mínum sem er nítján ára gamall. Við skráðum okkur þar sem allir voru við bílastæðin að gönguleiðinni að fyrsta gosinu, aðili skrifaði nöfn okkar og kennitölu á blað en hvað gert var við þessa skráningu veit ég ekki. Svo fórum við upp í mikið breyttan björgunarsveitarbíl, mjög háan bíl, við þurftum að setja á okkur hjálm og svo var lagt í hann. Það voru tvö ungmenni sem voru fram í og mér varð fljótlega ljóst að þau höfðu ekki mikla reynslu í að keyra svona tæki svo hættan var hugsanlega meiri fyrir okkur feðga á leiðinni inn í Grindavík en þegar við vorum komnir að húsinu okkar. Alla vega, á leiðinni var okkur sagt hvað við mættum og mættum ekki gera, okkur voru lagðar lífsreglurnar mætti segja. Eðlilega rötuðu þau ekki svo það var ekki nóg fyrir mig að segja þeim heimilisfangið, ég þurfti að lóðsa þau heim til mín. Þegar þangað var komið, fór annar björgunarsveitarmaðurinn að útidyratröppunum og kom svo til baka og sagði að við mættum koma, hvað hann var að athuga er mér ennþá hulin ráðgáta. Við feðgar vorum mjög vel skipulagðir, ég vissi nákvæmlega hvað ég var að fara sækja og ákvað að gera hlutina eins og mér var kennt þegar ég lærði reykköfun þegar ég var í slökkviliðinu. Ég fór hægri leit, eldhúsið var fyrst og þar gat ég hakað við þá hluti sem ég ætlaði mér að sækja og svona gerði ég þetta herbergi úr herbergi og allt gekk vel.“
Ari Már, sonur Arnar, fór strax inn í bílskúr þegar feðgarnir komu að húsinu. Ari hafði verið að laga bílinn sinn í bílskúrnum föstudaginn örlagaríka þegar allt lék á reiðiskjálfi og þeir feðgar ásamt Svanhvíti, konu Arnar og móður Ara, yfirgáfu heimilið við rýminguna. Ari var langt kominn með viðgerðina, hann átti bara eftir að skrúfa afturdekkin undir bílinn.
Örn hélt áfram. „Þegar ég var u.þ.b. hálfnaður, kom hinn björgunarsveitarmaðurinn og sagði kollega sínum, að strákurinn væri að gera við bíl inni í bílskúr. Þeir báru saman bækur sínar og sögðu mér að ég yrði að stoppa strákinn, annars myndi lögreglan mæta á svæðið. Ég sagðist myndi gera þetta en vildi fyrst klára mitt verk, ég vildi ekki eyða þessum dýrmætu fimm mínútum í einhvern óþarfa. Ég náði að heyra í talstöð annars björgunarsveitarmannsins, að hinn hefði kallað eftir aðstöð lögreglu því maður væri að gera við bíl úti í bílskúr, ég átti því alveg von á því að einhver atburðarrás væri að fara í gang. Á dauða mínum átti ég von en að sjá tvo menn, gráa fyrir járnum, víkingarsveitarmenn með hríðskotabyssur á öxlunum, hrekja barnið mitt út úr bílskúrnum og skella á eftir honum, aldrei! Þeir fóru mikinn, voru með mikil læti og hröktu barnið mitt út úr bílskúrnum og ég verð að viðurkenna að þarna missti ég aðeins „cool-ið“, ég hækkaði eitthvað róminn en náði að rökræða við þá, sem leiddi til þess að annar þeirra fór í talstöðina og leyfi fékkst fyrir því að skrúfa dekkin undir bílinn og sonur minn fékk að keyra bílinn í burtu. Ég náði að hafa betur í viðskiptum mínum við sérsveitina í þetta skiptið,“ segir Örn.
Pissað í beinni
Þetta eru ekki einu viðskipti feðganna við sérsveitina. „Þegar við komum í dag til að sækja hluti, þurfti sonur minn að pissa en eins og við vitum þá var Víðir búinn að banna piss í heimaklósett, sonur minn labbaði því þá u.þ.b. 150 metra sem eru frá mínu húsi, að Nettó þar sem salernin eru. Þegar hann nálgaðist mættu honum sérsveitarmenn, úr varð einhver rökræða en hann fékk á endanum að pissa og var svo skutlað heim í lögreglubíl, þessa heilu 150 metra. Svo þurfti ég að pissa líka og ákvað að gera það bara úti í garðinum hjá mér eftir hrakningar sonar míns en leið ekki vel að hafa dróna sveimandi yfir mér á meðan. Það var alveg sama hvert ég færði mig í garðinum, alltaf var dróninn beint yfir mér. Ég gat ekki hugsað mér að pissa í beinni útsendingu, hringdi í 112 og sagði viðkomandi frá stöðu minni, hvort einhver möguleiki væri að færa drónann frá mínu húsi rétt á meðan ég pissaði. Indæl stúlka sagðist gera það sem hún gæti en ekkert gerðist svo ég hringdi aftur. Þá var drónanum slakað niður en ég var varla búinn að klára þegar hann var kominn á loft aftur.
Ég veit hreinlega ekki hvar þessi forræðishyggja endar, nú eru þeir búnir að ákveða að það sé of kalt fyrir okkur að fara á morgun og á laugardaginn, spurning hvort við Grindvíkingar eigum ekki að henda í söfnun og kaupa húfur og vettlinga, jafnvel lýsi líka fyrir fólkið hjá Almannavörnum,“ sagði Örn að lokum.