Tveir Suðurnesjamenn dúxuðu í HR
Um helgina brautskráðust 432 nemendur frá Háskólanum í Reykjavík. Á þessu ári hefur háskólinn því samtals útskrifað hátt í 900 nemendur en á liðnu skólaári stunduðu ríflega 3000 einstaklingar nám við HR. Fjöldi útskriftarnemenda sem ljúka meistaranámi og doktorsnámi í dag er þriðjungur af útskrifuðum nemendum vorsins og hefur fjöldi þeirra aldrei verið meiri.
Flestir luku námi frá tækni- og verkfræðideild Háskólans í Reykjavík, eða 209 nemendur. Tækni- og verkfræðideild útskrifaði jafnframt nú, í fyrsta sinn, meistaranema í verkefnastjórnun, MPM-námi, sem og meistaranema í íþróttafræði. Einn nemandi lauk doktorsgráðu í verkfræði. Viðskiptadeild háskólans útskrifaði 94 nemendur og í þeim hópi eru fyrstu sálfræðinemarnir sem útskrifast frá HR. Lagadeild Háskólans í Reykjavík útskrifaði 76 nemendur, 36 með BA í lögfræði og 40 með ML í lögfræði, en meirihluti þeirra sem luku BA prófi í lögfræði halda áfram í ML nám í lögfræði við HR. Tölvunarfræðideild HR útskrifaði 55 nemendur, þeirra á meðal lauk einn nemandi doktorsgráðu í tölvunarfræði með áherslu á gervigreind.
Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands, afhenti fjórum nemendum viðurkenningar VÍ fyrir framúrskarandi námsárangur, þar á meðal voru tveir Suðurnesjamenn. Það voru Guðmundur Viktorsson úr Vogum, sem lauk námi frá tækni- og verkfræðideild og Keflvíkingurinn Einar Trausti Einarsson úr viðskiptadeild.
Á ljósmyndinn hér að ofan má sjá handhafa viðurkenninga Viðskiptaráðs Íslands fyrir framúrskarandi námsárangur, frá hægri á ljósmynd má sjá Finn Oddsson, framkvæmdastjóra VÍ, Snædísi Ósk Sigurjónsdóttur úr lagadeild, Einar Trausta Einarsson úr viðskiptadeild, Guðmund Viktorsson úr tækni- og verkfræðideild og Stellu Guðjónsdóttur úr tölvunarfræðideild;
Meðfylgjandi er ljósmynd af útskriftarhópi úr HR 9. júní 2012
Myndirnar tók Sigurður Stefán Jónsson