Tveir Suðurnesjamenn ákærðir fyrir mannrán
Tveir karlmenn af Suðurnesjum hafa verið ákærðir fyrir að svipta mann frelsi sínu við Garðskagavita og færa hann nauðugan í bifreið þeirra þann 8. febrúar 2007.
Mennirnir eru 31 árs og 24 ára gamlir. Hinn yngri er sagður hafa ekið sem leið lá að heimili sínu í Sandgerði. Í bifreiðinni hafi hinn eldri ítrekað slegið árásarþolann í andlitið. Þegar þeir hafi komið inn á heimilið í Sandgerði hafi hinn eldri hrint honum í gólfið og slegið hann ítrekað í andlitið, kýlt hann og slegið í bak og maga og sparkað í bak hans og fætur. Hinn yngri hafi sparkað í fætur árásarþolans og kýlt hann í maga og bringu.
Í kjölfarið hafi hinn eldri neytt árásarþolann til að fara í verslun Samkaup á Miðnestorgi í Sandgerði, og taka þaðan um 50 þúsund krónur ófrjálsri hendi úr peningaskáp.
Árásarþolinn hlaut margvíslega áverka, meðal annars bólgur og mar í andlit.
Málið var þingfest í Héraðsdómi Reykjaness í dag en mennirnir tóku sér frest til 14. október til að lýsa yfir afstöðu til ákærunnar.
Frétt af