Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Tveir stórbrunar í skipum á innan við viku
Fyrsta útkallið í Þrist ÍS kom á laugardagskvöld um kl. 23:30. Þá var tilkynnt um reyk frá skipinu. Þá var eldur slökktur í raflögnum í vélarrými skipsins. Undir morgun á sunnudag kom svo annað útkall sem brugðist var við. Slökkviliðið ætlaði svo í eftirlitsferð í skipið um kl. 9 á sunnudagsmorgun, þegar mikill eldur blossaði óvænt upp.
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
föstudaginn 5. maí 2023 kl. 08:42

Tveir stórbrunar í skipum á innan við viku

Mikið annríki hefur verið hjá slökkviliði Brunavarna Suðurnesja síðustu vikuna. Tveir stórbrunar urðu í fiskiskipum á innan við viku á starfssvæði slökkviliðsins. Aðfaranótt þriðjudags í síðustu viku kom upp mikill eldur í fiskiskipinu Grímsnesi GK-555 í Njarðvíkurhöfn. Þar fórst einn skipverji í eldinum og annar slasaðist alvarlega. Hann hefur verið útskrifaður af sjúkrahúsi. Á laugardagskvöldið kom upp eldur í öðru fiskiskipi, Þristi ÍS-360, í Sandgerðishöfn.

Slökkviliðið var með mikinn viðbúnað á laugardagskvöldið, enda eldsvoðar í skipum erfiðir viðureignar. Mikinn reyk lagði frá skipinu þegar að var komið. Slökkviliðsmenn þurftu að brjóta sér leið um borð og reykkafarar fundu eldinn í rafmagnsköplum í vélarrými skipsins. Hann var fljótlega slökktur og sögðu slökkviliðsmenn á vettvangi að eldurinn hafi ekki verið mikill en reykurinn mikill. Slökkviliðsmenn luku störfum á um tveimur tímum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Snemma á sunnudagsmorgun var slökkviliðinum aftur tilkynnt um reyk frá skipinu og var því útkalli sinnt og skipið skoðað með hitamyndavél sem sýndi fram á að allt væri orðið kalt.

Jón Guðlaugsson, slökkviliðsstjóri Brunavarna Suðurnesja, á vettvangi.

Jón Guðlaugsson, slökkviliðsstjóri Brunavarna Suðurnesja, sagði í samtali við Víkurfréttir að eftir útkall númer tvö undir morgun á sunnudag hafi verið ákveðið að fara í eftirlit með skipinu klukkan níu á sunnudagsmorgun. Slökkviliðsmenn voru rétt að leggja í ferðina þegar tilkynnt var um stórbruna í skipinu. Allt tiltækt slökkvilið var þá kallað út og barðist það við eldinn fram undir hádegi á sunnudag. Þá var orðið ljóst að skipið var gjörónýtt eftir eldinn og jafnframt var óttast að skipið myndi sökkva í höfninni, því mörg tonn af vatni og sjó voru komin um borð eftir slökkvistarfið. Þá var um tíma ekki þorandi að hafa slökkviliðsmenn um borð í Þristi ÍS, þar sem ályfirbygging skipsins var farin að bráðna en álið bráðnar við um 700 gráðu hita. Einnig var hætta á að skipið sykki.

Slökkvistarfi lauk formlega um miðjan dag á sunnudag en áfram var staðin vakt við skipið.

Það er mjög sjaldgæft að slökkvilið fái tvö útköll í stórbruna í skipum með svo stuttu millibili. Slökkviliðið hefur átt annríkt síðustu daga en nýverið varð einnig mikill bruni í einbýlishúsi í Garði. Þá eina öll þessi stærri útköll slökkviliðs það sameiginlegt að á meðan heim hefur staðið hafa samhliða borist fjölmörg útköll á sjúkrabíla sem Brunavarnir Suðurnesja reka á Suðurnesjum.

Frá slökkvistarfi við Sandgerðishöfn sl. sunnudag. Hér eru slökkviliðsmenn Brunavarna Suðurnesja að dæla vatni á yfirbyggingu skipsins. Hún er úr áli og byrjaði að bráðna við 700 gráðu hita. Við þær aðstæður er ekki hægt að vera um borð í skipinu og eiga það á hættu að fá yfir sig bráðnandi málminn.
Fiskiskipið Þristur ÍS 360 brennur í höfninni í Sandgerði sl. sunnudagsmorgun. Eins og sjá má á myndinni er skipið orðið nokkuð sigið en þegar þarna var komið við sögu var búið að dæla mörgum tonnum af sjó og vatni á brennandi skipið.