Tveir slösuðust eftir fall
Tvö slys urðu í vikunni í umdæmi lögreglunnar á Suðurnesjum, þar sem menn slösuðust eftir að hafa fallið úr talsverðri hæð. Annað atvikið átti sér stað í Grindavík, þar sem starfsmaður var að fara úr stiga og upp á loftplötu. Hann var nánast kominn upp þegar stiginn rann undan honum og féll hann í jörðina. Fallið var um þrír metrar. Maðurinn var fluttur með sjúkrabifreið á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, þar sem meiðsl hans voru könnuð.
Hitt atvikið átti sér stað um borð í bát, sem lá við bryggju í Njarðvíkurhöfn. Þar féll maður niður stiga sem liggur frá millidekki og niður í lúkar. Það fall var einnig um þrír metrar. Maðurinn kenndi mikilla verkja og var fluttur með sjúkrabifreið á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.