Tveir sjoppuþjófar handteknir
Lögreglunni á Suðurnesjum barst í nótt tilkynning um að brotist hefði verið inn í söluskála í umdæminu. Þar hafði rúða verið brotin, farið inn og varningi stolið, einkum sígarettum. Lögregla hafði fljótlega upp á tveimur mönnum sem grunaðir voru um verknaðinn. Þeir voru handteknir og færðir á lögreglustöðina. Í herbergi annars þeirra fann lögreglan síðan meint þýfi úr söluskálanum. Mennirnir viðurkenndu brot sín og voru látnir lausir að yfirheyrslum loknum.