Tveir piltar af Suðurnesjum létust í Öxnadal
Piltarnir sem létust í umferðarslysi í Öxnadal í nótt hétu Sigurður Ragnar Arnbjörnsson, 18 ára, til heimilis að Kirkjuvegi 18, Reykjanesbæ, og Þórarinn Samúel Guðmundsson, 15 ára, til heimilis að Silfurtúni 18c í Garði. Þjóðhátíðahöld í Garðinum voru látin niður falla vegna slyssins í dag, enda eiga báðir ættir að rekja þangað.
Ásamt þeim voru tveir ungir piltar í viðbót í bílnum þegar hann fór af veginum við Jónslund í nótt. Þeir hafa verið til aðhlynningar á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri en annar þeirra hefur nú verið fluttur á Landspítalann í Reykjavík. Engin vitni voru að slysinu en lögreglan á Akureyri vinnur að rannsókn á tildrögum þess. Vegfarandi, sem ók fram á slysið rétt fyrir klukkan hálfþrjú í nótt, gerði lögreglu viðvart.