Tveir nýir knattspyrnuvellir næsta sumar
Framkvæmdir við íþróttasvæðið í Vogum hafa staðið yfir að undanförnu en þar er verið að gera tvo knattspyrnuvelli í fullri stærð. Verkinu á að ljúka núna á haustdögum og verður hægt að byrja spila á völlunum næsta sumar. Aðstæður til að halda íþróttamót verða þar með orðnar þokkalega góðar í Vogunum.
Nýju grasvellirnir munu leysa eldri knattspyrnuvöllinn af hólmi. Ekki liggur fyrir hvernig sá völlur verður nýttur en ein hugmyndin er sú að koma þar upp tjaldsvæði enda aðstæður til þess kjörnar, t.d. varðandi vatnslagnir og nálægð við þjónustu. Sérstakt tjaldsvæði hefur ekki verið til staðar í sveitarfélaginu um tíma.
Alls verður 60 milljónum króna varið í þessar framkvæmdir við íþróttavöllinn.