Tveir nýir bátar til Grindavíkur
Kosta á bilinu 170 til 180 milljónir króna
Einhamar í Grindavík tók á móti tveimur nýjum bátum í flotann í gær, Auði Vésteins SU og Gísla Súrssyni GK. Bátarnir eru smíðaðir hjá Trefjum ehf. Þeir eru 15 metrar að lengd og um 30 brúttótonn.
Stefán Kristjánsson, framkvæmdastjóri Einhamars, segir í samtali við Fiskifréttir að tilgangurinn með fjárfestingu í nýjum bátum sé að afla hráefnis fyrir landvinnsluna. „Bátarnir verða gerðir út á línu og eru talsvert stór fjárfesting. Hvor bátur kostar á bilinu 170 til 180 milljónir króna með öllum búnaði. Þarna er allt til alls og siglingabúnaður, vél- og kælibúnaður eins og hann gerist bestur,“ segir Stefán.
Bátarnir eru yfirbyggðir Cleopatra 50. Aðalvélin er af gerðinni Doosan og er 880 hestöfl. Fullkomið blóðgunar- og kælikerfi er á millidekki frá 3X Technology. Beitningarvél frá Mustad er um borð. Haukur Einarsson er skipstjóri á Auði Vésteins og Haraldur Björnsson á Gísla Súrssyni.