Tveir í ofsaakstri - einn með gasbyssu og veiðihníf
Fimmtán ökumenn hafa verið kærðir fyrir of hraðan akstur í umdæmi lögreglunnar á Suðurnesjum á síðustu dögum. Athæfi tveggja þeirra flokkast undir ofsaakstur því bifreiðir þeirra mældust á 144 og 146 km hraða þar sem hámarskahraði er 90 km á klukkustund. Sá þeirra sem hraðar ók hafði ekki náð 18 ára aldri og var forráðamönnum hans gert viðvart um brot hans.
Þá töluðu sjö í síma undir stýri án þess að nota áskilinn búnað og skráningarnúmer voru fjarlægð af fjórum bifreiðum sem voru óskoðaðar eða ótryggðar. Fjórir voru teknir úr umferð vegna gruns um fíkniefnaakstur. Einn þeirra var með gasbyssu og veiðihníf í fórum sínum og gerðist þar með að auki brotlegur við vopnalög.