Heklan
Heklan

Fréttir

Tveir hnúfubakar skemmta hvalaskoðurum
Hvalaskoðunarbáturinn Margrét SU kemur til hafnar í Grófinni í síðustu viku. VF-mynd: Hilmar Bragi
Þriðjudagur 27. febrúar 2018 kl. 09:02

Tveir hnúfubakar skemmta hvalaskoðurum

- ferðamönnum finnst geggjað að fara í óveðursferð á Reykjanes

Tveir hnúfubakar hafa síðstu daga haldið sig nærri landi í Leiru og við Keflavík. Það hefur því ekki verið langt fyrir hvalaskoðunarbátinn Margréti að fara með áhugasamt hvalaskoðunarfólk.
 
WHALEWATCHINGREYKJANES.IS gerir út hvalaskoðunarbátinn Margréti SU-4 frá smábátahöfninni í Gróf í Keflavík. Boðið er upp á daglegar ferðir úr Grófinni kl. 13 en einnig er í boði að fara ferð í birtingu ef fólk á bóka flug eftir hádegið.
 
Axel Már Waltersson, sem sér um hvalaskoðunarsiglingar á Margréti, sagði í samtali við Víkurfréttir að það hafi verið mikið að gera undanfarið í hvalaskoðunarsiglingum frá Keflavík en þar stjórnast þó allt af veðri og ekki er farið ef alda er meiri en 1,5.
 
Síðustu daga hefur ekki þurft að sækja lengra en í Leiruna og þaðan hefur hvalnum svo verið fylgt til Keflavíkur. Aðspurður sagði Axel að hótelin á svæðinu væru dugleg að senda til hans fólk í ferðir. Þá hefur hvalaskoðunin hans verið að fá góða einkunn á TripAdvisor og er þar með fimm stjörnur. „Við ætlum að halda þeim áfram og högum okkur eftir því,“ sagði Axel.
 
Ef ekki er veður til að fara á sjó þá býðst fólki að fara í ævintýraferð um Reykjanesskagann og skoða náttúruperlur. Þá er Axel einnig farinn að bjóða upp á „óveðursferðir“. 
 
„Ef ekki er veður til siglinga er viðskiptavinum boðið að fara í óveðursferð um Reykjanesið. Þá er ekið á þá staði þar sem aðlandsvindur er og gestir geta upplifað brimið berja klettana við ströndina. Í ferðinn er einnig komið við í Garði og Garðskaga, Reykjanesvita og við Gunnuhver,“ segir á vef WHALEWATCHINGREYKJANES.IS.
 
Axel sagði að gestum sínum finnist það geggjað að fara út á Reykjanes og fá haustlegan vind í fangið. Til að fyrirbyggja allan misskilning þá er ekki verið að fara með fólk í hættulegar aðstæður en Íslenskt hvassviðri sé vinsælt en ekki sé verið að fara með ferðamenn í óvissu þar sem vindurinn slái í 40 metra á sekúndu.
Í samtali við blaðið sagðist Axel horfa björtum augum til sumarsins. Hann sé að fá nýjan farþegabát í hvalaskoðunarferðir og þá fái Margrét SU frekara hlutverk sem sjóstandaveiðibátur, en sjóstangaveiði sé eitt af því sem fyrirtækið bjóði uppá, auk norðurljósaferða.

Nýsprautun vetrardekk
Nýsprautun vetrardekk
VF jól 25
VF jól 25