Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Tveir handteknir í Leifsstöð
Miðvikudagur 3. desember 2014 kl. 10:33

Tveir handteknir í Leifsstöð

- af 118 í alþjóðlegum aðgerðum lögreglu gegn greiðslusvikum á netinu.

Tveir erlendir karlmenn voru handteknir í Flugstöð Leifs Eiríkssonar í nýafstöðnu alþjóðlegu átaki á vegum evrópulögreglunnar Europol vegna greiðslusvika á netinu. Var spjótunum sérstaklega beint gegn þeim sem kaupa flugmiða með illa fengnum, eða fölskum kreditkortaupplýsingum. Aðgerðirnar fóru fram 26. og 27. nóvember síðastliðin og í þeim tóku þátt lögreglan á Suðurnesjum ásamt alþjóðadeild ríkislögreglustjóra. Er þetta í þriðja skipti sem slíkt átak fer fram undir stjórn netglæpadeildar Europol og í fyrsta skipti sem lögreglan á Íslandi tekur fullan þátt í slíkri aðgerð auk flugfélaganna WOW og Icelandair. 

Mennirnir tveir, sem um ræðir, voru handteknir í tengslum við verkefnið s.l. fimmtudag þar sem þeir ætluðu að fljúga frá Íslandi til Evrópu á miðum sem keyptir voru fyrir stolnar kreditkortaupplýsingar. Þeir voru tveir af 118 einstaklingum sem voru handteknir um allan heim þessa tvo aðgerðardaga. Að minnsta kosti annar þeirra á brotaferil að baki í Evrópu en talið er að mennirnir tengist skipulagðri brotastarfsemi sem teygir anga sína víða um Evrópu. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

 Allt að helmingur þeirra sem handteknir voru í aðgerðinni tengist annarri skipulagðri glæpastarfsemi svo sem mansali, smygli á fólki, fíkniefnasmygli, peningaþvætti og fleiri alvarlegum brotum.

Verkefnið er samvinnuverkefni alþjóðlegra löggæsluyfirvalda, þvert á landamæri, auk samvinnu við flugfélög og kreditkortafyrirtæki. Yfir 60 flugfélög tóku þátt í verkefninu og náði það til 45 landa og 80 flugvalla um allan heim. Þessi samvinna er gríðarlega mikilvæg til að mæta þessari skipulögðu glæpastarfsemi sem talin er valda tjóni flugfélaganna upp á um eina billjón dala á ári hverju. 

Þrjár samhæfingarstöðvar voru reknar vegna verkefnisins, hjá Europol í Haag, Interpol í Singapore og Ameripol í Bogota.

Sjá nánar hér