Tveir Gerðaskólanemar meðal 40 bestu á landinu
- í samræmdum prófum í stærðfræði í 4. bekk. Gerðaskóli yfir meðaltali í 5 af 7 samræmdum prófum
Gerðaskóli var yfir meðaltali í fimm samræmdum prófum af þeim sjö sem tekin eru. Þar er miðað við hefðbundinn samanburð á meðaleinkunn skóla sem oftast er miðað við. Jóhann Geirdal, skólastjóri Gerðaskóla, vakti athygli á þessu á fundi skólanefndar Sveitarfélagsins Garðs á dögunum.
„Það er vissulega gott að vera yfir meðaltali í meirihuta prófana. Það sem ég var líka að vekja athygli á var hvað mætti lesa út úr frammistöðu einstakra nemenda, það er það sem skiptir auðvitað mestu máli,“ segir Jóhann í samtali við Víkurfréttir. Hann segir niðurstöður samræmdu prófana í haust gefa fulla ástæðu til bjartsýni. Meðaleikunn skólans var yfir landsmeðaltali í 5 prófum af 7 sem er góður árangur. Bestur var hann í 4. bekk þar sem nemendur Gerðaskóla voru yfir meðaltali í báðum prófunum.
Jóhann segir sérstaklega ánægjulegt að skoða stærðfræðina í 4. bekk. „Til dæmis má nefna að tveir af okkar nemendum voru með raðeinkunina 99, sem þýðir að þeir voru í efsta hundraðshluta allra þeirra nemenda á landinu sem tóku prófið. Það má ætla að um 4000 nemendur hafi tekið prófið og eru þessir tveir nemendur okkar því meðal 40 hæstu nemenda á landinu, auk þess var einn nemandi með raðeinkunnina 98 þ.e. meðal 80 hæstu nemenda á landinu. Það er ótrúlega góður árangur sem hvaða skóli sem er getur verið stoltur af. Þetta sýnir að vel hefur verið farið yfir námsefnið og kennslan hefur verið góð.“
Í bréfi sem stjórnendur Gerðaskóla sendu til foreldra og starfsfólks um áramór segir: „Þó skólinn sé að standa sig vel í 7. og 10. bekk er er hann ekki að skara framúr á sama hátt og í 4. bekk. Þetta er nokkuð sem við viljum bæta. Það þarf að auka hvatningu til nemenda, vekja áhuga þeirra og skilning á mikilvægi þess að leggja sig fram í náminu. Það er verkefni sem við verðum öll að standa saman að. Hvatning og stuðningur frá foreldrum, ömmum, öfum og öðrum sem börnin líta upp til, skiptir miklu máli. Skólinn þarf líka að vera í stakk búinn til að koma til móts við þau börn sem þurfa á viðbótarþjónustu að halda. Þetta er því verk sem við þurfum að vinna í sameiningu. Það er ósk okkar að við getum öll sameinast um að gera skólann okkar enn betri en hann er í dag“.