Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Tveir frá Reykjanesbæ á hamfarasvæðin á Haiti
Miðvikudagur 13. janúar 2010 kl. 09:39

Tveir frá Reykjanesbæ á hamfarasvæðin á Haiti

Flugvél Icelandair fer frá Keflavíkurflugvelli núna klukkan tíu með 32 sérþjálfaða rústabjörgunarmenn frá Íslensku alþjóðabjörgunarsveitinni áleiðis til Haiti, þar sem öflugir jarðskjálftar riðu yfir í gær.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Tveir rústabjörgunarmenn frá Björgunarsveitinni Suðurnes eru í þessu 32ja manna björgunarliði, þeir Halldór Halldórsson og Haraldur Haraldsson.


Björgunarsveitarfólk í Reykjanesbæ hóf að undirbúa brottförina til Haiti strax uppúr miðnætti í gær.


Björgunarsveitin Suðurnes er með tilbúinn búnað fyrir fjóra menn en þar sem aðeins tveir þeirra fara út nú á eftir þurfti að minnka birgðirnar.


Íslenska alþjóðabjörgunarsveitin sameinaðist svo í höfðustöðvum sveitarinnar á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli undir morgun með allan sinn búnað. Hann er nú kominn um borð í þotu Icelandair sem mun flytja björgunarsveitina niður til Haiti. Fyrst verður flogið til Boston í Bandaríkjunum og þaðan verður haldið áfram annað hvort beint til Haíti eða Dóminíska Lýðveldisins. Ræðst það af ástandi flugvallarins á Haíti. Flugturninn í höfuðborginni hrundi í skjálftanum og flugumferðarstjórn fer fram í bifreið á flugvellinum.


Auk sérþjálfaðra rústabjörgunarmanna fara tveir flugvirkjar með vélinni. Þeir taka með sér varadekk og tjakk, því ef eitthvað fer úrskeiðis á flugvellinum á hamfarasvæðinu, þá er lítil von um utanaðkomandi aðstoð.


Íslenska alþjóðabjörgunarsveitin er vel tækjum og búnaði búin og getur starfað án allrar utanaðkomandi aðstoðar í sjö sólarhringa. Hópurinn sem fer utan nú á eftir gerir ráð fyrir því að geta verið hálfan mánuð á hamfarasvæðinu.


Það er utanríkisráðuneytið í samstarfi við Slysavarnafélagið Landsbjörg sem bauð fram aðstoð Íslands sem stjórnvöld á Haiti þáðu í nótt. Íslenska hjálparsveitin verður með fyrstu erlendu björgunarsveitunum sem koma á hamfarasvæðið á Haiti.


Meðfylgjandi myndir tók Hilmar Bragi í nótt á Keflavíkurflugvelli og í björgunarstöðinni við Holtsgötu í Njarðvík.

Íslenska alþjóðabjörgunarsveitin tekur með sér mikið magn af björgunarbúnaði.



Fjölmennt lið var mætt á Keflavíkurflugvöll í nótt til að undirbúa brottförina.



Björgunarbúnaðurinn settur um borð í Öskju, þotu Icelandair. Meðal annars fara nokkur tonn af vatni.