Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Tveir frá Björgunarsveitinni Suðurnes til Haiti
Miðvikudagur 13. janúar 2010 kl. 05:40

Tveir frá Björgunarsveitinni Suðurnes til Haiti

Tveir félagar úr Björgunarsveitinni Suðurnes eru í viðbragðsstöðu ásamt félögum sínum úr Íslensku alþjóðabjörgunarsveitinni vegna jarðskjálfta á Haiti í gærkvöldi. Mikill viðbúnaður hefur verið á Keflavíkurflugvelli í alla nótt við undirbúning hugsanlegrar farar, en íslenska alþjóðabjörgunarsveitin hefur aðstöðu á Keflavíkurflugvelli. Þá hafa félagar í Björgunarsveitinni Suðurnes gert fulltrúa sína klára til fararinnar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Beðið er viðbragða stjórnvalda á Haiti en fjöldi alþjóðlegra björgunarsveita hefur boðið fram aðstoð sína. Flugvél Icelandair bíður nú á Keflavíkurflugvelli og mun fara í loftið á tíunda tímanum með 32 sérþjálfaða rústabjörgunarmenn og um 10 tonn af rústabjörgunarbúnaði og 3 tonn af vatni.


Gríðarleg eyðilegging hefur átt sér stað á Haiti og er óttast að mannfall sé mikið. Á svæðinu þar sem jarðskjálftinn reið yfir búa yfir 2 milljónir manna.


Það eru utanríkisráðuneytið í samvinnu við Slysavarnafélagið Landsbjörg sem bjóða fram aðstoð Íslensku alþjóðabjörgunarsveitarinnar.


Myndirnar eru frá æfingu alþjóðasveitarinnar á Ásbrú í Reykjanesbæ sl. sumar. Sveitin hefur aðsetur fyrir allan sinn búnað á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli. Myndir: Hilmar Bragi