Tveir fluttir á Landsspítala eftir eldsvoða í Keflavík
Nú er verið að flytja tvo einstaklinga á Landsspítalann í Fossvogi eftir að eldur kom upp í íbúð við Mávabraut í Keflavík nú í kvöld. Slökkvilið Brunavarna Suðurnesja er á vettvangi ásamt fjölmennu liði frá lögreglunni á Suðurnesjum.
Tilkynnt var um eld í íbúð við Mávabraut um kl. 21 í kvöld. Mikill reykur var í íbúðinni þegar að var komið og einhver eldur. Tveir einstaklingar voru fluttir á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja til skoðunar og var sjúkrabifreið lögð af stað með annan þeirra til Reykjavíkur nú á tíunda tímanum og verið var að búa hinn undir flutning.
Nánari upplýsingar er ekki að hafa um brunann en eldurinn var fljótt slökktur. Miklar skemmdir eru í íbúðinni af sóti og reyk.
Meðfylgjandi myndir voru teknar á vettvangi nú áðan.