Tveir brunar til viðbótar á Suðurnesjum
Enn eru brennuvargar á ferð á Suðurnesjum en kveikt var í á tveimur stöðum í nótt. Annars vegar var kveikt í í Garði en hins vegar á Ásbrú í Reykjanesbæ.
Kveikt var í sorptunnu utan við félagsmiðstöð unglinga í Garði í gærkvöldi um kl. 22. Tunnan stóð upp við húsvegg og mildi að eldurinn náði ekki að læsa sig í sjálft húsið. Lögreglumenn voru fljótir á vettvang og náðu að slökkva eldinn með handslökkvitæki áður en slökkvilið Brunavarna Suðurnesja kom á staðinn.
Þá var einnig kveikt í sorpgámi úr plasti á Ásbrú í Reykjanesbæ um kl. 04 í nótt. Samkvæmt frétt mbl.is í morgun, þá stóðu gámarnir upp við íbúðarhús þar sem inni voru bæði fullorðnir og börn og lítur lögregla málið mjög alvarlegum augum. Lögreglan var fljótt á vettvang og gat slökkt eldana áður en atbeina slökkviliðsins þurfti til, svo ekki urðu meiri skemmdir en svo að gámarnir skemmdust og klæðningar á húsum skemmdust einnig eitthvað.
Ekki tókst að hafa hendur á hári brennuvargsins, eða brennuvarganna, en málið verður sent áfram til rannsóknar hjá rannsóknardeild. Varðstjóri hjá lögreglunni á Suðurnesjum segir mjög alvarlegt að einhver gangi um að nóttu til og kveiki í við hús þar sem fólk liggur sofandi inni.
Mynd: Frá slökkvistarfi á nýársdag í Reykjanesbæ. Víkurfréttamynd: Hilmar Bragi Bárðarson