Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Tveir brunar og níu sjúkraflutningar á tæpum sólarhring
Mánudagur 25. desember 2006 kl. 21:55

Tveir brunar og níu sjúkraflutningar á tæpum sólarhring

Slökkvilið BS sinnti ellefu útköllum, samtals níu sjúkraflutningum og tveim staðfestum eldum; þar af voru þrjú útköll á sama tíma.

Frá því kl. 17:00 í gær, aðfangadag, og til hádegis í dag, jóladag, hafa verið ellefu útköll hjá Slökkviliði Brunavarna Suðurnesja, þar af níu sjúkraflutningar og tveir staðfestir eldar.

Tilkynnt var um staðfestan eld í  skúr við Litla Hólm í Leiru á sjötta tímanum. Skúrinn, sem er í eigu Flugmálastjórnar, hýsir aðallega tæknibúnað, þar með svokallaðan stefnuvita fyrir Keflavíkurflugvöll.
Álitið er að upptök eldsins hafi verið út frá rafmagni og viðkomandi tæknibúnaður því að mestu ónýtur.  Að örðu leiti gekk að slökkvistarf vel.

Töluverður erill  var hjá næturvaktinni Aðfangadagsnótt og aðfararnótt Jóladags. Tilkynnt var um tvö bráðatilfelli í sjúkraflutningum fyrir miðnætti; hið fyrra var veikindatilfelli og hið síðara bílvelta við hringtorgið Borgarvegur/Njarðarbraut.  Þar var fólksbíl, sem ekið var í suður, ekið á töluverðum hraða yfir hringtorgið og lenti síðar utanvegar. Einn var fluttur á slysadeild og áfram á Landsspítala Háskólasjúkrahús í Reykjavík.
Ekki er vitað um líðan mannsins, grunur leikur á að Bakkus hafi ráðið miklu í ökulagi viðkomandi ökumanns þessarar ferðar. 
Síðar um nóttina varð eitt bráðatilfelli vegna veikinda sem flutt var á Landsspítala Háskólasjúkrahús í Reykjavík.

Um klukkan 09:00 í morgun, jóladag, var tilkynnt um tvö bráðtilfelli í sjúkraflutningum. Bæði tilfellin tengdust veikindum og var annað flutt á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og þaðan á Landsspítala Háskólasjúkrahús í Reykjavík.  Hitt tilfelli var flutt á  Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og skömmu síðar aftur í heimahús. 

Á sama tíma tilkynnti Neyðarlínan um eld í íbúðarhúsi við Seljavog í Höfnum. Húsráðendur eru af erlendum toga og vegna tungumálaörðugleika var tilkynning óljós en hljómaði eins og um töluverðan eld væri að ræða. Allt tiltækt slökkvilið BS var því kallað út, en þegar fyrsta viðbragð kom á staðinn reyndist útkallið ekki eins alvarlegt og í fyrstu.  Húsráðendur voru að mestu búnir að ráða niðurlögum eldsins sem átti upptök sín í stofu hússins.

Reykræsta þurfti húsið og eru skemmdir aðallega vegna sóts.  Fór því betur en áhorfðist í fyrstu og mátti snúa stórum hluta liðsafla BS við á upphafsstigum útkallssins. Mikil hálka var á Hafnarveginum þegar slökkvilið fór í útkallið, segir Sigmundur Eyþórsson slökkviliðsstjóri Brunavarna Suðurnesja í samantekt á vef BS, www.bs.is
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024