Tveir árekstrar á Reykjanesbraut ofan Reykjanesbæjar
Flytja þurfti tvo undir læknis hendur eftir að harður árekstur varð milli tveggja bifreiða á Reykjanesbraut, nokkru norðan við Hafnaveg, í fyrradag. Var annar ökumannanna fluttur á bráðamóttöku Landspítala en hinn á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Atvikið varð með þeim hætti að sterk vindhviða feykti annarri bifreiðinni til hliðar þeim afleiðingum að bifreið sem ekið var á eftir henni lenti í hlið hennar. Bílarnir voru báðir fjarlægðir af vettvangi með dráttarbifreið.
Sama máli gegndi um tvær bifreiðar til viðbótar sem skullu saman þegar annarri var ekið í veg fyrir hina af Aðalgötu inn á Reykjanesbraut. Stöðvunarskylda er af fyrrnefndu götunni inn á Reykjanesbrautina. Ökumenn sluppu ómeiddir en bílarnir skemmdust talsvert.