Kalka atvinna okt 25
Kalka atvinna okt 25

Fréttir

Tveir af hverjum þremur komnir með vinnu að nýju
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
mánudaginn 1. nóvember 2021 kl. 07:13

Tveir af hverjum þremur komnir með vinnu að nýju

Atvinnuleysi í Reykjanesbæ heldur áfram að dragast saman og mældist 9,7% í lok septembermánaðar. Það er lægsta frá því í desember 2019 þegar atvinnuleysi mældist 8,9% en fór hæst í 24,9% um síðastliðin áramót. Lætur nærri að tveir af hverjum þremur sem voru atvinnulausir þegar hæst lét séu komnir af skrá. Þetta kemur fram í gögnum af síðasta fundi menningar- og atvinnuráðs Reykjanesbæjar.

Atvinnuleysi er nú lægra en það var áður en áhrif Covid-19 komu fram. Gera þarf ráð fyrir árstíðarsveiflum og mikilvægt að fylgjast með þróun í flugi á komandi mánuðum. Alls voru 1.109 einstaklingar skráðir í atvinnuleit um mánaðarmót. Þar af 610 karlar og 499 konur.

Nýsprautun vetrardekk
Nýsprautun vetrardekk

Með opnun landamæra í Bandaríkjunum gæti flug yfir Atlantshafið aukist og því bindur menningar- og atvinnuráð vonir við að aukin umsvif því fylgjandi muni vega upp á móti samdrætti sem í eðlilegu árferði myndi fylgja vetrartíðinni.

Þrátt fyrir að atvinnuleysi hafi dregist mikið saman á undanförnum mánuðum eru engu að síður 292 einstaklingar sem hafa verið skráðir atvinnulausir á seinustu sex mánuðum, fleiri en tilheyra hópnum sem hefur verið frá sex til tólf mánuðum á skrá.

Athyglisvert verður að fylgjast með þessum tölum á komandi mánuðum en gera má ráð fyrir að einhver hluti þeirra sem nú eru með starf í gegnum úrræði VMST komi aftur á skrá. Þeir einstaklingar verða væntanlega flokkaðir í samræmi við þann bótarétt sem þeir hafa nýtt, segir í fundargerð menningar- og atvinnuráðs.

Dubliner
Dubliner