Tveir á sjúkrahús eftir bílveltu
Tveir voru fluttir með sjúkrabifreið á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja í fyrrakvöld eftir að bílvelta varð á Suðurstrandarvegi. Meiðsl þeirra reyndust ekki alvarlegs eðlis. Mikil hálka var á vettvangi þegar óhappið varð.
Áður hafði orðið umferðaróhapp á Norðurljósavegi nærri Bláa lóninu þegar ökumaður missti bifreið sína út af og hafnaði hún í hrauninu við veginn. Ökumaður slapp ómeiddur en bifreiðin var talsvert skemmd.