Tveimur fjórhjólum stolið úr gámi
Tvö fjórhjól af gerðinni Yamaha og bindivél hurfu úr gámi sem brotist hafði verið inn í Njarðvík nýverið. Ekki er ljóst nákvæmlega hvenær þjófnaðurinn átti sér stað en hann var tilkynntur lögreglu í fyrradag. Hjólin og bindivélin voru geymd í gámi sem læstur var með hengilás. Þegar komið var að var búið að brjóta lásinn og fara inn í gáminn.
Lögreglan á Suðurnesjum rannsakar málið.