Tveggja ára skilorð fyrir tvær líkamsárásir
Karlmaður fæddur 1986, búsettur í Reykjanesbæ, hefur í Héraðsdómi Reykjaness verið dæmdur í sex mánaða fangelsi, skilorðsbundið til tveggja ára, vegna hættulegrar líkamsárásar en hann sló konu með flösku í höfuðið á skemmtistaðnum Paddy´s í Reykjanesbæ í desember 2008. Við það hlaut konan 8cm skurð.
Þá er maðurinn jafnframt sakfelldur fyrir að hafa nefbrotið mann með hnefahöggi í júní 2008. Sú árás átti sér stað á Akureyri en þessi tvö mál voru sameinuð. Brotaþolinn í því máli gerði kröfu um skaðabætur upp á 870 þúsund krónur. Dómurinn þótti hins vegar bætur hæfilega ákveðnar 150 þúsund krónur. Þá þarf sakborningur að greiða brotaþola 150 þúsund í málskostnað.
Ákærði þarf jafnframt að greiða 265 þúsund krónur í sakarkostnað auk 210 þúsund króna í þóknun skipaðs verjanda síns.
Í dómsorði segir að aðstæður ákærða séu breyttar í dag, hann sé hættur að drekka áfengi, eigi nýfætt barn og sé í sambúð. Í ljósi þessa og þar sem ákærði hafi ekki áður sætt refsingu sem máli skipti, skuli fullnustu refsingarinnar frestað og hún niður falla að liðnum tveimur árum frá birtingu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.