Tvær veltur í fljúgandi hálku
Tvær bílveltur voru tilkynntar til lögreglunnar á Suðurnesjum snemma í morgun. Önnur þeirra varð á Garðvegi þar sem jeppabifreið valt og hin á Sandgerðisvegi þar sem fólksbíll endaði á toppnum utan vegar.
Báðir bílarnir voru á góðum dekkjum en samkvæmt upplýsingum lögreglunnar var mikil hálka á vegunum og á Sandgerðisvegi blindaði sólinn einnig ökumanninn.
Ökumaður bifreiðarinnar sem valt á Garðvegi leitaði sjálfur til læknis en sjúkrabifreið fluttu ökumanninn af Sandgerðisvegi. Meiðsl voru minniháttar.
Meðfylgjandi myndir voru teknar á Sandgerðisvegi í morgun. VF-myndir: Hilmar Bragi