Tvær stúlknanna látnar
Tvær af stúlkunum þremur sem fluttar voru á gjörgæsludeild Landspítalans í gær eftir alvarlegt bílslys eru látnar, samkvæmt upplýsingum frá vakthafandi lækni á deildinni. Sú þriðja er enn á gjörgæsludeildinni.
Fjögur ungmenni voru flutt á sjúkrahús eftir að bíllinn valt við Mánatorg norðan við Keflavík um hálfsjöleytið í gærmorgun. Í bílnum voru þrjár stúlkur og einn piltur. Stúlkurnar þrjár voru fluttar á slysadeild Landspítalans í Fossvogi, en svo á gjörgæsludeild. Piltur, sem ók bílnum, slapp án teljandi meiðsla og var útskrifaður af Heilbrigðisstofnun Suðurnesja síðdegis í gær. Ungmennin eru á aldrinum 18-19 ára. Þau voru í jeppa sem lenti á ljósastaur og valt.
Ekki hafa verið gefnar nánari upplýsingar um tildrög slyssins en lögreglan rannsakar málið. Svo virðist sem stúlkurnar hafi ekki verið í bílbeltum og köstuðust þær út úr bílnum.
Ekki verður greint frá nöfnum hinna látnu að svo stöddu.