Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Tvær nýjar flugleiðir hjá easyJet frá Keflavík
Frá vinstri: Stuart Gill, sendiherra Breta, Ragnheiður Elín Árnadóttir, ráðherra ferðamála, Davíð Ásgeirsson, flugstjóri hjá easyJet, Ali Gayward, framkvæmdastjóri hjá easyJet og Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia. VF-myndir/pket.
Þriðjudagur 28. október 2014 kl. 10:05

Tvær nýjar flugleiðir hjá easyJet frá Keflavík

Sonur bæjarstjórans í Vogum flugstjóri í fyrstu ferðinni frá Gatwick.

EasyJet, stærsta flugfélag Bretlands opnaði tvær nýjar flugleiðir frá Keflavíkurflugvelli í gær, til Genfar í Sviss og Gatwick flugvallar í Englandi. Áttunda leiðin verður opnuð í desember nk. en þá bætist Belfast í N-Írlandi við hjá félaginu.

„Fyrir tveimur árum hefði okkur ekki órað fyrir þessum vexti og áhuga EasyJet á Íslandi. Það sem skiptir hvað mestu máli er að flugfélagið er að fljúga hingað til Keflavíkur allan ársins hring en ekki bara á háannatímanum á sumrin. Þetta skiptir okkur gríðar miklu máli,“ sagði Björn Óli Hauksson, forstjóri Keflavíkurflugvallar en félagið er nú næst umsvifamesta flugfélagið á Íslandi.

Flugvél easyJet frá Genf lenti með 154 farþega innanborðs og var með 86% sætanýtingu og frá Gatwick í London voru 178 farþegar og sætanýtingin þar var 99%. Flugstjóri í síðarnefnda jómfrúarfluginu var Íslendingurinn Davíð Ásgeirsson og var hann viðstaddur stutta móttökuathöfn ásamt m.a. breska sendiherranum hér á landi, Stuart Gill, og Ragnheiði Elínu Árnadóttur ráðherra ferðamála en þau klipptu á borða við brottfararhliðið áður en fyrstu farþegarnir stigu um borð.
Davíð er sonur Ásgeirs Eiríkssonar, bæjarstjóra í Vogum á Vatnsleysuströnd. Hann hefur starfað hjá easyJet í átta ár og er mjög ánægður með hinn mikla áhuga félagsins á Íslandi. „Þetta er bara frábært. Bretar elska Ísland og það er gaman að vera þátttakandi í þessu. Ég var flugstjóri í fyrstu ferð félagsins til Ísland árið 2012 og nú eru flugleiðirnar orðnar sjö og verða átta í desember,“ sagði flugstjórinn en með honum voru tveir íslenskir starfsmenn í áhöfninni.

Þegar áttunda flugleiðin bætist við í des. mun flugfélagið bjóða upp á alls 26 flugferðir til og frá Íslandi í viku hverri og er búist við að heildarfjöldi farþega á einu ári verði í kringum 200 þúsund (c.a. 400 þúsund leggir). Ferðamönnum á Íslandi hefur fjölgað um rúm 40% undanfarin tvö ár og aukið framboð á hagstæðu flugi til landsins hefur átt mikinn þátt í þeirri fjölgun.

EasyJet, sem hefur á undanförnum misserum orðið æ mikilvægari þátttakandi í íslenskri ferðaþjónustu og efnahagslífi, hyggst flytja um 75 þúsund farþega á nýju flugleiðunum tveimur til Gatwick og Genf á næstu 12 mánuðum.
Ragnheiður Elín Árnadóttir, ráðherra ferðamála sagðist fagna þessari aukningu hjá easyJet en hún hefði mikil áhrif fyrir atvinnulífið á Suðurnesjum og ferðaþjónustuna almennt.

Í tilkynningu frá EasyJet kemur fram að lægsta fargjald í boði til London sé 6.254 kr. og lægsta gjald til Genfar sé 9.346 kr.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Frá vinstri: Ragnheiður Elín Árnadóttir, ráðherra ferðamála, Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia, Ali Gayward, framkvæmdastjóri hjá easyJet og Stuart Gill, sendiherra Breta.

Fyrstu farþegarnir fengu flottar veitingar áður en þeir stigu um borð í vélina til Gatwick. Hér er Gunnhildur Vilbergsdóttir, starfsmaður Isavia í kökuskurði.

Davíð flugstjóri og áhöfn hans við opnunina í Keflavík er hér með Guðnýju Maríu Jóhannsdóttur, forstöðumanni hjá Isavia.

Þegar áttunda flugleiðin bætist við í des. mun flugfélagið bjóða upp á alls 26 flugferðir til og frá Íslandi í viku hverri og er búist við að heildarfjöldi farþega á einu ári verði í kringum 200 þúsund.

Heiðraðir með vatnsboga:  Flugvél easyJet í fyrsta fluginu frá Genf í Sviss fær hinar hefðbundnu mótttökur frá slökkviliðinu á Keflavíkurflugvelli.