Tvær milljónir í snjómokstur á dag - of margar „óþarfa“ beiðnir um aðstoð
„Núna er allur flotinn úti við snjómokstur, voru til miðnættis í gær og byrjuðu klukkan 04:00 í morgun. Verið er að vinna í að fá fleiri tæki. Snjómokstri er forgangsraðað eftir ákveðnu ferli, almenningssamgöngur, stofnanir o.s.f.v. Þær götur sem eru í forgangi eru strætóleiðir, stofnbrautir og helstu tengibrautir sem liggja í átt að neyðarþjónustu s.s. sjúkrahúsi, lögreglu og slökkvistöð auk gatna sem liggja í átt að skólum og leikskólum,“ segir Guðlaugur H. Sigurjónsson hjá Reykjanesbæ í færslu á Facebook í morgun.
Alls er bærinn með aðgang að 17 tækjum sem vinna við snjómokstur og kostar dagurinn um 2 milljónir króna.
Í frétt vf.is í morgun er haft eftir Haraldi Haraldssyni, formanni Björgunarsveitarinnar Suðurnes að sveitin hafi fengið yfir 120 beiðnir um aðstoð og margar þeirra hafi verið „óþarfar“.
„Ef þú kemst ekki út úr innkeyrslunni heima hjá þér, þá áttu ekki erindi út í umferðina“ sagði Haraldur.
Einnig voru mörg úrköll þar sem þurfti að bjarga ungmennum sem lögðu leið sína niður í bæ til að komast í sjoppu. Haraldur sagði ungt fólk hafi verið í glórulausu ferðalagi á bílnum frá mömmu og pabba. „Foreldrar þurfa að hafa vit fyrir þessu fólki,“ sagði Haraldur jafnframt.