Tvær kisur vildu aftur á Völlinn
Dýrafangarar á Suðurnesjum hafa fangað tvo ketti með amerísk örmerki frá því að tilkynnt var um brottför Varnarliðsins í mars. Þeir kettir voru komnir með íslenskt heimili en fóru á flakk í hugsanlegri leit að fyrri eigendum.
Magnús H. Guðjónsson dýralæknir hjá Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja sagði í samtali við Víkurfréttir í morgun að engar tilkynningar hafi borist um yfirgefna hunda eða ketti á Varnarsvæðinu. Bandaríkjamenn hafi passað vel upp á gæludýrin sín og meðal annars haft dýralækni í föstu starfi frá því í mars sem hafi tekið að sér að votta dýr sem flutt voru erlendis, gefin eða svæfð.
Yfirlögregluþjónn á Keflavíkurflugvelli sagði ekki vita til þess að yfirgefin dýr hafi fundist á varnarsvæðinu. Þess væri að minnsta kosti ekki getið í dagbók lögreglu.
Myndin: Samsett mynd.