Tvær hugmyndir um sameiningu sveitarfélaga á Suðurnesjum
Ef sveitarfélögin á Suðurnesjum yrðu sameinuð í eitt sveitarfélag yrði íbúafjöldi þess rúmlega 21,500. Sveitarfélag af þeirri stærðargráðu hefði bolmagn til að sinna öllum núverandi verkefnum og gæti tekið við stórum verkefnum frá ríkinu, s.s. málefni fatlaðra og aldraðra. Á hinn bóginn væri hægt að hafa tvö sveitarfélög á Suðurnesjum. Reykjanesbær yrði eitt sveitarfélag með um 14 þúsund íbúa og og hin sveitarfélögin yrðu eitt með ríflega 7,300 íbúa, þ.e. Grindavík, Sandgerði, Garður og Vogar.
Sigurður Tómas Björgvinsson, hjá Stjórnsýsluráðgjöf ehf sem sérhæfir sig í ráðgjöf fyrir opinbera aðila, kynnti þessar tvær sameiningahugmyndir á aðalfundi SSS um síðustu helgi. Sigurður fór yfir störf nefndar um eflingu sveitarstjórnarstigsins sem byggir á yfirlýsingu fyrrverandi ráðherra sveitarstjórnarmála Kristjáns Möller og Halldórs Halldórssonar, formanns Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Sigurður sagði fyrirhugaðan flutning verkefna frá ríki til sveitarfélaga helst hvetja til þess að sveitarfélögin huguðu að sameiningum. Nefndi hann málefni fatlaðra sem flytjast munu til sveitarfélaganna um næstu áramót, málefni aldraðra 2012 og heilsugæsluna 2015. Auk þess væri umræða um að flytja fleiri verkefni frá ríki til sveitarfélaga, t.d. framhaldsskólana, löggæslu, ýmis samgönguverkefni, almannatryggingar og fleira.
Sigurður sagði helstu kosti þess að sameina öll sveitarfélögin á Suðurnesjum vera þá að þar með yrði til nógu stórt sveitarfélag til að geta tekið við nýjum, stórum verkefnum frá ríkinu auk þess að sinna núverandi verkefnum. Samgöngur væru mjög greiðar á milli byggðakjarna og mikil hefð fyrir samvinnu á svæðinu sem yrði eitt samfellt atvinnu- og þjónustusvæði. Þá myndi hagræðing sameiningarinnar skila sér í bættri þjónustu.
Þó svo að ein sveitarstjórn yrði yfir sameinuðu sveitarfélagi yrði hægt að setja á stofn svæðisráð til að tryggja áhrif jaðarsvæða.
---
VFmynd/elg - Hugmyndir um sameiningu sveitarfélaga á Suðurnesjum voru kynntar á aðalfundi SSS nýverið.