Tvær flugvélar urðu fyrir eldingu við Keflavík
Tvær flugvélar Icelandair urðu fyrir eldingu rétt áður en þær lentu á Keflavíkurflugvelli síðdegis í dag. Annars vegar var um að ræða vélina frá Stokkhólmi og hins vegar frá Lundúnum. Frá þessu er greint á mbl.is.
Að sögn Guðjóns Arngrímssonar, upplýsingafulltrúa Icelandair, urðu engar skemmdir á vélunum vegna þessa. Segir hann vélarnar strax eftir lendingu hafa farið í gegnum eldingaskoðun, sem sé venjan þegar flugvélar verða fyrir eldingu.
Sökum þessa urðu smávægilegar tafir á flugi Icelandair til Orlando í Bandaríkjunum.
Mynd: Ekki fór eins vel fyrir nokkrum misserum þegar flugvél Icelandair varð fyrir eldingu skammt frá Keflavík. Nef vélarinnar brotnaði þá eins og sjá má á meðfylgjandi mynd Hilmars Braga.