Tvær finnskar björgunarþyrlur komnar
Finnsku björgunarþyrlurnar sem verða hér á landi á meðan „Iceland Air Meet 2014“ fer fram.
Finnar leggja til tvær björgunarþyrlur sem geta verið til aðstoðar Landhelgisgæslunni í leitar- og björgunarverkefnum á meðan æfingin „Iceland Air Meet 2014“ fer fram hér á landi. Þyrlurnar komu með flutningaskipi til hafnar í Helguvík í gær og voru Víkurfréttir á staðnum og smelltu af myndum.
Eins og við höfum áður fjallað stendur nú yfir fjölþættur undirbúningur fyrir æfinguna sem mun fara fram samhliða loftrýmisgæslu Atlantshafsbandalagsins við Ísland. Gert er ráð fyrir að samtals verði um að ræða 300 liðsmenn frá þjóðunum og um 20 flugvélar á landinu vegna æfingarinnar.
Æfingin þjónar m.a. þeim tilgangi að þjálfa þjóðirnar í að flytja mannafla og búnað til björgunarstarfa fjarri heimahögum og íslenska samstarfsaðila í að taka á móti og þjónusta svo fjölmennt björgunarlið. Hún verður að þessu sinni í umsjón flugsveitar norska flughersins. Sænskar og finnskar flugsveitir taka þátt í æfingunni auk Norðmanna.
Fulltrúar Landhelgisgæslunnar kanna aðstæður hjá annarri þyrlunni.
Hin þyrlan dregin um hafnarsvæðið áður en hún tók á loft.
Hafnarvörðurinn í Helguvík, Jóhannes, fylgist með að allt fari vel fram.
VF/Olga Björt