Tvær Eddur í Garðinn
Tvær konur úr Garðinum unnu til kvikmyndaverðlauna Eddunnar 2024, en hátíðin fór fram um helgina. Þetta eru þær Kristín Júlla Kristjánsdóttir og Bergþóra Björnsdóttir.
Bergþóra Björnsdóttir fékk Edduna fyrir heimildakvikmynd ársins, Uppskrift: Lífið eftir dauðann.
Kristín Júlla Kristjánsdóttir fékk Edduna fyrir gervi ársins í kvikmyndinni Á ferð með mömmu. Kristín var einnig tilnefnd fyrir kvikmyndina Kulda.
Verðlaunin hafa verið veitt árlega af Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunni frá árinu 1999. Hátíðin í ár markar þáttaskil þar sem kvikmynda- og sjónvarpsverðlaununum hefur verið skipt upp og voru Kvikmyndaverðlaun Eddunnar 2024 afhent 13. apríl. Sjónvarpsverðlaunin verða afhent á haustmánuðum.
Til kvikmyndaverðlauna Eddunnar í ár voru send inn alls 39 verk og 132 innsendingar til fagverðlauna. Heimildamyndir voru 8, heimildastuttmyndir 7, kvikmyndir 7 og stuttmyndir 11.