Tuttugu verkefni hlutu styrk úr afmælissjóði Reykjanesbæjar
Alls bárust 27 umsóknir í afmælissjóð Reykjanesbæjar sem var kynntur í byrjun árs. Tilefni sjóðsins var að þann 11. júní næstkomandi eru 30 ár eru liðin frá því að Reykjanesbær varð til við sameiningu, Keflavíkur, Njarðvíkur og Hafna. Frá þessu er greint á vef Reykjanesbæjar.
Tuttugu og eitt fjölbreytt verkefni fengu styrk úr afmælissjóðnum við úthlutun á dögunum, samtals tæplega 20 milljónir. Lagt var upp með að verkefnin hefðu það markmið að auðga mannlíf, efla menningu, virkja íbúa og/eða laða að gesti, heiðra söguna, fegra bæinn eða styðja við fjölbreytileikann. Meðal verkefna sem líta dagsins ljós á afmælisárinu eru ratleikir, fjölskylduskemmtun í Njarðvíkurskógum, söguskilti við strandlengjuna, matarhátíð og fjölbreytt tónleikahald.
Til viðbótar fá Ljósanótt og 17. júní aukið fjármagn til hátíðarhalda og unnið er að myndbandi sem stiklar á stóru yfir 30 ára sögu sveitarfélagsins. Þá hefur Sinfóníuhljómsveit Íslands boðað komu sína í haust og mun bjóða yngstu bekkjum grunnskóla upp á skemmtilega tónleika.
Stefnt er að því vera með sérstaka afmælisviku frá afmælisdeginum 11. júní og fram að þjóðhátíðardeginum 17. júní þegar við höldum einnig upp á 80 ára afmæli lýðveldisins. Þá viku mun Reykjanesbær bjóða íbúum og gestum frítt í söfn, strætó og sund. Að auki verða fjölbreyttir viðburðir allt árið tengdir 30 ára afmælinu.