Tuttugu þúsundasti íbúi Reykjanesbæjar er barnabarn forsetans
Tuttugu þúsundasti íbúi Reykjanesbæjar, fæddist 4. ágúst en það er lítill drengur, sonur Sigríðar Guðbrandsdóttur og Sigurbergs Bjarnasonar. Stráksi þurfti að jafna sig eftir fæðinguna áður en hann gat boðið bæjarstjóranum í heimsókn sem vildi endilega heilsa upp á tuttugu þúsundasta íbúann því hann flýtti sér í heiminn og kom því aðeins fyrir áætlaðan fæðingardag.
Unga parið er í skýjunum en Sigríður er dóttir Guðbrands Einarssonar, forseta bæjarstjórnar Reykjanesbæjar og svo eru þau Sigurbergur bæði starfsmenn bæjarins. Guðbrandur afi var á fundi hjá bæjarráði þegar hann fékk fréttirnar af því að nýjasta barnabarnið í fjölskyldunni væri tuttugu þúsundasti íbúi Reykjanesbæjar.
„Við fylgdumst með þessu eins og kosningaúrslitum og þetta var mjög spennandi því það fæddust fleiri börn þennan dag,“ sagði Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri þegar hann afhenti ungu foreldrunum gjöf frá Reykjanesbæ, svokallað krýli frá listamanninum Línu Rut.
Foreldararnir sögðu breytinguna mikla eftir fjölgun í fjölskyldunni en allt gengi vel og þau væru í skýjunum með nýja hlutverkið.
Kjartan Már sagði VF að það væri mikil fjölgun íbúa og frá 4. ágúst þegar litli drengurinn kom í heiminn hafi 116 nýir bæjarbúar komið í heiminn. Þegar þetta er skrifað eru þeir orðnir 20116 og hefur fjölgað um nærri 500 á fyrstu níu mánuðum ársins. Fjölgunin allt árið 2020 var mun minni eða 246. Nú er útlit fyrir að fjölgunin verði nálægt tvöfalt meiri en í fyrra. „Það er nóg að gera hjá bæjarstjórn að passa upp inniviði því við þurfum fleiri skóla fyrir unga fólkið okkar,“ sagði Kjartan Már.