Tuttugu skólabörn í hrakningum á Suðurnesjum
Tuttugu skólabörn frá Manchester í Englandi lentu í hrakningum á Suðurnesjum í dag. Þau eru nú í fjöldahjálparstöð sem Rauði krossinn á Suðurnesjum hefur opnað í Reykjanesbæ.
Hópurinn, börn á aldrinum 14 til 15 ára, komu til landsins í morgun frá Manchester og ætluðu sér í Bláa lónið. Hætt var við ferðina þangað vegna veðurs. Þau voru í rútu á leið til Reykjavíkur þegar rútan fauk utan í vegrið á Reykjanesbrautinni.
Björgunarsveitarfólk af Suðurnesjum sóttu þá börnin tuttugu, þrjá leiðsögumenn þeirra og bílstjóra rútunnar og fluttu til Reykjanesbæjar.
Þar tók Rauði krossinn á móti hópnum í fjöldahjálparstöðinni við Smiðjuvelli. Guðmundur Ingólfsson hjá Rauða krossinum segir að þar sé hópurinn í góðu yfirlæti og bíði þess nú að veður lægi þannig að rúta frá Reykjavík geti sótt hópinn og flutt hann í höfuðborgina.