Tuttugu milljarða framkvæmdir á Keflavíkurflugvelli
Annasamasta sumarið í íslenskri ferðaþjónustu er framundan og bauð Isavia til opins fundar á Hótel Reykjavík Natura í gær þar sem kynntar voru framkvæmdir og aðgerðir sem félagið hefur staðið fyrir undanfarið til að taka vel á móti þeim ferðamnnum sem koma til landsins í sumar.
„Við höfum stækkað flugstöðina verulega frá því í fyrrasumar, fjölgað starfsfólki í þjónustustörfum, aukið afkastagetu í öryggisleit auk þess sem fleiri flugfélög eru komin í sjálfsinnritunarkerfið okkar,“ sagði Hlynur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar á fundinum. „Við ráðum því við mun meiri farþegafjölda en á sama tíma í fyrra. Hins vegar verður farþegaaukningin það mikil í sumar að hefðbundin innritun hefst 2,5 tímum fyrir flug hjá öllum flugfélögum. Við viljum því fá aðila í ferðaþjónustu í lið með okkur og hvetja ferðamenn til að vera snemma á ferðinni í sumar til að ferðalagið gangi sem best fyrir sig,“ sagði Hlynur. Þá kom fram í máli hans að flugstöðin hafi verið stækkuð um 10.000 fermetra og að stjórn Isavia hafi samþykkt að hefja fjárfestingar fyrir 20 miljarða á þessu ári.
Nýr Ferðamannapúls var kynntur til sögunnar á fundinum en með honum verður heildaránægja ferðamanna mæld og niðurstöðurnar birtar mánaðarlega.
Nánar má lesa um fundinn á vef Isavia.