Túristagos í Eldvörpum
Ferðaþjónustuaðilar á Suðurnesjum, með Bláa lónið í fararbroddi, eru að skoða möguleika á því að koma Eldvörpum á Reykjanesi inn í hinn gullna túristahring á Suðurnesjum. Hópur fólks frá Bláa lóninu fór í dag á svæðið og var borhola á svæðinu látin gjósa. Um er að ræða eina aflmestu borholu í heimi og var gosið tilkomumikið.Hugmyndir eru uppi um að láta borholuna gjósa fyrir hópa sem kaupa sérstakar hvataferðir, sem njóta aukinna vinsælda. Mikill hiti er á svæðinu og stígur gufa upp úr hrauninu. Kom fram í heimsókninni að Eldvörpum í dag að gufuuppstreymi á svæðinu hefur aukist eftir jarðskjálftana árið 2000. Þannig er hitinn um 100 gráður á um 10 sentimetra dýpi í einum af gígum svæðisins.