Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Tugur starfa í hættu hjá Aalborg Portland í Helguvík
Þriðjudagur 25. ágúst 2009 kl. 16:26

Tugur starfa í hættu hjá Aalborg Portland í Helguvík

Atvinnu um tug starfsmanna Aalborg Portland í Helguvík er stefnt í hættu ef fótunum verður kippt undan starfsemi Aalborg Portland hér á landi. Fyrirtækið hefur lagt í gríðarlegar fjárfestingar á Suðurnesjum til að geta veitt fyrirtækjum á Íslandi sem besta þjónustu. Hefur fyrirtækið með þessu sýnt í verki að það hefur fullan hug á að starfa til langframa hér á landi. Hjá fyrirtækinu starfa nú níu manns, flestir þeirra eru búsettir á Suðurnesjum.
 

Fyrir u.þ.b. tíu árum síðan var samkeppni innleidd á sementsmarkaði hér á landi þegar danska fyrirtækið Aalborg Portland hóf starfsemi á Íslandi. Íslenskir sementskaupendur tóku þessu almennt fagnandi enda var þar með endir bundinn á áratugalanga einokun á sementssölu á hinum íslenska markaði, einokun sem lengst af var í höndum ríkisfyrirtækisins Sementsverksmiðju ríkisins. Almenningur tók þessari breytingu einnig fegins hendi, enda engri atvinnustarfsemi hollt að búa við einokun, hvort sem er til lengri eða skemmri tíma. Fyrir þennan tíma var sement á Íslandi talið það dýrasta í heiminum, segir í tilkynningu frá Samtökum verslunar og þjónustu í tilefni af opinberri umræðu um slæma stöðu Sementsverksmiðjunnar á Akranesi. Vilja SVÞ - Samtök verslunar og þjónustu benda á eftirfarandi:

 

Með EES samningnum er aðildarríkjum samningsins gert að koma í veg fyrir einokun á mörkuðum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024
 

Fullyrða má að krafa um að fyrirtæki á samkeppnismarkaði (þó að þau séu tímabundið formlega séð í eigu ríkisbanka) beindi viðskiptum sínum til fyrirtækis í eigu samkeppnisaðila, færi gegn ríkjandi sjónarmiðum í samkeppnismálum og bryti beinlínis gegn ákvæðum samkeppnislaga. Sementsverksmiðjan á Akranesi er að mestum hluta í eigu eins stærsta steypuframleiðanda hér á landi.

 

Slík ráðstöfun teldist jafnframt vafalítið falla undir ríkisstyrkjaákvæði EES samningsins. Til þess að ríkisstyrkir teljist heimilir verður Eftirlitsstofnun EFTA að samþykkja slíka ráðstöfun. Telja verður í meira lagi hæpið að ríkisstyrkur í því formi sem hér um ræðir yrði heimilaður af stofnuninni.

 

Það hefur verið samdóma álit aðila í atvinnulífinu og samkeppnisyfirvalda að í því slæma ástandi sem nú ríkir í efnahagslífi okkar sé mikilvægt að standa vörð um samkeppnina. Heilbrigð og eðlileg samkeppni á mörkuðum muni flýta fyrir endurreisn efnahagslífsins. Því verður þess vegna ekki trúað fyrr en á reynir að stjórnvöld muni standa fyrir aðgerðum sem komi á einokun á sementsmarkaði á ný.

 

Hafa ber í huga að Aalborg Portland hefur lagt í gríðarlegar fjárfestingar á Suðurnesjum til að geta veitt fyrirtækjum á Íslandi sem besta þjónustu. Hefur fyrirtækið með þessu sýnt í verki að það hefur fullan hug á að starfa til langframa hér á landi. Hjá fyrirtækinu starfa nú níu manns (voru fjórtán þegar mest var), flestir þeirra eru búsettir á Suðurnesjum. Atvinna þessa fólks er í hættu ef fótunum verður kippt undan starfsemi þess hér á landi.

 

Samtök verslunar og þjónustu er málsvari verslunar- og þjónustufyrirtækja á Íslandi. Það er hlutverk samtakanna að standa vörð um heilbrigða samkeppni í atvinnulífinu.

Einokun eða tilburðir í þá átt er því eitur í beinum samtakanna. Einokun er nefnilega alltaf skaðleg, hvort sem hún er Íslensk eða erlend. Það ættum við Íslendingar að þekkja allra þjóða best.



Mynd: Athafnasvæði Aalborg Portland í Helguvík. Ljósmynd: © Oddgeir Karlsson