Tugir einbýlishúsalóða ruku út eftir frétt á vef Víkurfrétta
Einbýlishúsalóðir í svokölluðu Ásahverfi ruku út í dag eins og heitar lummur eftir að Víkurfréttir birtu frétt á vef sínum, vf.is, um að Reykjanesbær myndi auglýsa 130 einbýlishúsalóðir á einni til tveimur hæðum lausar til umsóknar nú þegar í hverfinu.
Eftir að fréttin birtist á netinu í dag varð ástandið á bæjarskrifstofunum eins og á góðri útsölu og þegar skrifstounum var lokað síðdegis voru 35 lóðir af 130 farnar. Eingöngu verður úthlutað til einstaklinga fram til föstudagsins 10. febrúar 2006 og verður sá háttur hafður á að umsækjandi velur sér lóð. Það þýðir í raun, fyrstur kemur, fyrstur fær. Rétt á meðan Víkurfréttir tóku viðtal við Árna Sigfússon, bæjarstjóra, um lóðamálið fóru fimm lóðir.
Allt gatnakerfi svæðisins er byggt upp sem húsagötur og aðalinnkoma að hverfinu er frá Njarðarbraut um nýtt hringtorg. Gata liggur gegnum hverfið frá Njarðarbraut að Grænásvegi. Aðrar götur ganga út frá henni til norðurs og suðurs og tengist efsta gatan inn á núveraandi Vallarás. Almennt eru lóðir um 750m2 að stærð.
Í útjaðri svæðisins eru leik- og útivistarsvæði sem umlykja byggðina. Þar eru bæði sparkvellir og leiksvæði sem tengjast saman við göngustíg. Gert er ráð fyrir tveimur bílastæðum á lóð.Umsóknareyðublöð liggja frammi á skrifstofu Umhverfis- og skipulagssviði á Tjarnargötu 12, einnig á upplýsingavef Reykjanesbæjar,
reykjanesbaer.is
Með umsóknum þarf að fylgja staðfesting banka eða lánastofnunar á greiðsluhæfni umsækjanda á 18 milljónum króna.
Video: Viðtal við Árna Sigfússon um lóðir í Ásahverfi. (.wmv)