Tryggja verður áframhaldandi uppbygginu atvinnutækifæra
„Mér finnst þessi skýrsla sýna að okkur hefur miðað í rétta átt hér á Suðurnesjum og það hefur margt jákvætt verið að gerast. Ég get þó ekki sagt að ástandið sé orðið ásættanlegt og enn eru ótal atriði sem þarf að vinna í. Mikilvægasta verkefnið er að tryggja áframhaldandi uppbyggingu atvinnutækifæra og þar skiptir miklu máli að framkvæmdir við álverið í Helguvík komist í gang sem fyrst. Mér finnst líka mikilvægt að við höldum áfram að huga með markvissum hætti að atvinnuþróun eins og gert hefur verið í gegnum Hekluna,“ segir Ólafur Þór Ólafsson, forseti bæjarstjórnar Sandgerðis um áfangaskýrslu Suðurnesjavaktarinnar.
„Það er áhyggjuefni hversu hlutfall háskólamenntaðra er langt fyrir neðan landsmeðaltal. Því verður að breyta m.a. með því að efla enn frekar menntastofnanir á Suðurnesjum og styrkja samvinnu og samstarf þeirra á milli.
Þá er sá fjöldi eigna á Suðurnesjum sem er í höndum Íbúðalánsjóðs sláandi. Það þarf örugglega að greina þær tölur betur en þó er klárt að þetta getur ekki talist eðlilegt ástand og hlýtur að vera sameiginlegt verkefni ríkis og sveitarfélaga að skoða það nánar.
Það væri auðveldlega hægt að nefna fleiri atriði úr þessari ágætu skýrslu sem er fín samantekt og gott verkfæri í höndum okkar allra sem vilja hag Suðurnesjanna sem mestan. Hún er gagnleg til að skilgreina þau verkefni sem þarf að takast á við og hjálpar til við að sjá þær leiðir sem eru færar. Ég hef óbilandi trú á Suðurnesjunum og Suðurnesjamönnum og þegar maður skoðar þau tækifæri sem við höfum hér á svæðinu þá er ekki annað hægt en að vera bjartsýnn á framtíð okkar sem eitt af sterkustu landsvæðum Íslands,“ segir Ólafur Þór í samtali við blaðið.