Tryggja fjármagn til MSS
„Aðalfundur SSS fagnar þeim árangri sem náðst hefur í starfi Miðstöðvar símenntunar á Suðurnesjum. Rúmlega 60 nemendur stunda nú nám á háskólastigi hjá MIðstöðinni og leggur aðalfundurinn áherslu á að sú starfssemi geti haldið áfram að blómgast.“ Þetta segir í ályktun sem samþykkt var á aðalfundi SSS um helgina. Hvatt er til þess að fjárveitingavaldið haldi áfram að tryggja fjármagn til verkefnisins en háskólanám er verkefni ríkisins. Í greinargerð sem fylgdi ályktuninni kemur fram að 61 nemandi stundi nám við MSS í hjúkrunarfræðum, rekstrarfræðum og leikskólafræðum. Sveitarfélög á svæðinu hafa styrkt starfssemi MSS ötullega en fjarnám á háskólastigi er á kostnað ríkisins. Mjör gott samstarf er við Háskólann á Akureyri en þar fer kennsla greinanna fram. Samningur við Háskólann á Akureyri var undirritaður við MSS fyrir nokkru og er mikil ánægja með form kennslunnar.