„Trúi því ekki að ástandið sé svona slæmt“
- segir Þórunn Ólafsdóttir um fellibylinn Irmu
„Það eina sem við vorum búin að ákveða í gær þegar við lögðum af stað var að keyra til Orlando þar sem við vorum með gistingu í tvær nætur. Fyrir okkur Íslendingana er þetta allt svo óraunverulegt, maður trúir því eiginlega ekki að ástandið sé svona slæmt. Við áttuðum okkur ekki á þessu fyrr en við fórum að fylgjast með fréttunum almennilega, þá varð þetta raunverulegt,“ segir Grindvíkingurinn Þórunn Ólafsdóttir, en hún býr í Coral Gables í Miami þar sem hún stundar nám við University of Miami.
Þórunn yfirgaf íbúðina sína ásamt syni sínum og sambýlismanni í gær en spáð er að fellibylurinn Irma fari yfir svæðið sem þau búa á á föstudag eða laugardag. Þegar blaðamaður Víkurfrétta ræddi við Þórunni voru þau stödd í Orlando og klukkan að ganga átta að morgni. Næsta skref hjá þeim var svo að keyra til Atlanta, en þar eru þau með hótel næstu tvær næturnar. Eftir það er framhaldið óvíst. Samkvæmt öllu ættu þau að geta farið heim aftur um miðja næstu viku, vonandi fyrr en engar skemmdir hafa enn verið á svæðinu sem þau búa á og ekki er enn búið að breyta því í „evacuation zone“.
Hvernig gekk að yfirgefa svæðið?
„Það gekk mjög vel. Við vorum reyndar ekki mikið að kippa okkur upp við þetta fyrst þegar við heyrðum um fellibylinn en svo þegar við fórum að fylgjast betur með fréttum þá fórum við að stressast aðeins upp og að lokum var þetta orðið frekar stórt stresskast. Ég fékk símtal frá háskólanum þar sem mér var tilkynnt að honum yrði lokað strax og við vorum hvött til þess að yfirgefa svæðið sem fyrst. Þá tókum við ákvörðun að gera íbúðina „hurricane proof“, settum útihúsgögnin inn, pökkuðum öllu okkar dóti ofan í tösku og héldum af stað áleiðis til Orlando. Við fengum íbúðina okkar full innréttaða þannig við erum bara með föt og raftæki með okkur. Við vorum búin að skoða öll flug frá Miami en það var allt uppselt, alveg sama hver áfangastaðurinn var. Öll hótel voru líka að seljast upp þannig að við þurftum að hafa hraðar hendur og bóka herbergi strax.“
Það eina sem skiptir máli er að komast í burtu
„Það eina sem við vorum búin að ákveða í gær þegar við lögðum af stað var að keyra til Orlando þar sem við vorum með gistingu í tvær nætur. Fyrir okkur Íslendingana er þetta allt svo óraunverulegt, maður trúir því eiginlega ekki að ástandið sé svona slæmt. Við áttuðum okkur ekki á þessu fyrr en við fórum að fylgjast með fréttunum almennilega, þá varð þetta raunverulegt.“
Engir vegatollar svo allir kæmust leiða sinna
„Ríkisstjóri Flórída lét afnema alla vegatolla svo að umferðin myndi ganga greiðlega og voru flest allar bensínstöðvarnar í Miami og Flórída orðnar tómar. Það er bara ekkert bensín til. Fólk fyllir á bílana sína og setur líka auka bensín í bensínbrúsa til þess að vera öruggt um það að það hafi nóg bensín fyrir ferðalagið framundan. Allar matvöruverslanir í Miami eru að tæmast, bókstaflega allar hillur eru tómar vegna þess að fólk er að byrgja sig upp. Það er meiri matur til í matvöruverslunum í Orlando en allur dósamatur og vatn er búið.“
Hefur lítil áhrif
„Þetta ástand hefur í raun og veru ekki mikil áhrif á okkur sem betur fer. Skólinn minn og skóli sonar míns eru lokaðir og við tókum allar námsbækur með okkur svo við gætum sinnt heimanáminu þannig að við erum ekki að missa úr námi. Allar mikilvægar eignir okkar eru með okkur þannig að það er engin hætta á því að eitthvað sem við eigum skemmist. Mestu áhyggjurnar sem ég hafði voru af syni mínum og hvaða áhrif þetta hefði á hann. Sem betur fer er hann mjög meðfærilegur og er ekkert að stressa sig á þessu. Hann virðist bara hafa gaman af því að vera á svona ferðalagi, gista á hótelum og sjá nýja staði. Einu breytingarnar hjá okkur eru aukakostnaður en nú erum við búin að þurfa að gista á tveimur hótelum og erum á leið á það þriðja, auk þess er líka aukinn bensín- og matarkostnaður.“
Eins og eyðibýli
„Það er mjög skrýtið að vera í Orlando núna. Við höfum oft verið hér áður og hér er alltaf jafn mikið líf en staðan er ekki þannig núna. Miðbærinn er eins og eyðibýli. Hvert sem maður fer eru allir að ræða hvert þeir séu að fara eða hvaða öryggisráðstöfunum þeir ætli að fylgja. Í augnablikinu erum við í Orlando en leið okkar liggur til Atlanta þar sem við erum með hótel næstu tvær næturnar. Það er allt svo óljóst núna og ekki hægt að segja til um það hvert stormurinn stefni eða hversu miklum skaða hann muni valda. Þangað til bíðum við bara og fylgjumst með fréttum. Erum óviss með framhaldið eða hvert verður haldið næst.“