Tröll rísa á Vogastapa
Í tengslum við bæjarhlið Reykjanesbæjar er verið að setja upp kynjamyndir úr grjóti á þremur stöðum á Vogastapa. Tröllin eru staðsett á landamerkjum Voga og Reykjanesbæjar. Stór björg úr Helguvík eru notuð í listaverkin og er þeim raðað hvert ofan á annað. Kranar eru notaðir til að koma björgunum fyrir, en þau eru sum hver tugir tonna að þyngd. „Það skyldi þó aldrei vera að tröllin væru komin úr Trölladyngju á Reykjanesi,“ sagði einn viðmælandi Víkurfrétta í morgun.
Bæjarhlið Reykjanesbæjar verður lýst upp í kvöld við hátíðlega athöfn sem byrjar klukkan 18:30.
VF-ljósmynd/Jóhannes Kr. Kristjánsson: Tröllin líta ófrýnilega út þar sem þau standa á landamerkjum Voga og Reykjanesbæjar, á Vogastapa.