Troðfullt blað af viðtölum og fróðleik
Víkurfréttir eru komnar út á rafrænu formi. Prentaðri útgáfu blaðsins verður dreift á alla okkar dreifingarstaði á miðvikudagsmorgun.
Það er svo sannarlega nóg að lesa í blaði vikunnar. Fjöldi viðtala og mikill fróðleikur í þessu 16 síðna blaði.
Nettröllin hafa farið hamförum. Samtökin ‘78 eru að fræða börn, ekki að innræta þeim hugmyndir. „Símarnir hafa breytt leiknum,“ segir Sólborg Guðbrandsdóttir í viðtali við Víkurfréttir.
„Líf mitt hefði verið allt öðruvísi ef ég hefði fengið fræðslu um hinsegin málefni í grunnskóla,“ segir Jórmundur Kristinsson frá Grindavík en talsvert hefur borið á umræðu um Samtökin ‘78 að undanförnu í kjölfarið á fræðslu um hinsegin málefni í grunnskólum landsins. Hann er í viðtali við Víkurfréttir
Keflvíkingurinn Garðar Örn Arnarson er maðurinn á bak við tjöldin í orðsins fyllstu merkingu. Hann er hugmyndasmiðurinn á bak við hinn geysivinsæla sjónvarpsþátt um íslenskan körfuknattleik, Körfuboltakvöld. Garðar Örn er í viðtali við blaðið í þessari viku.
Matráðsskipti urðu á dögunum í stærsta leikskóla Reykjanesbæjar, Akri í Innri-Njarðvík, en Sabina Arthur Rúnarsdóttir, sem er frá Ghana, tók við af Sigríði Guðrúnu Ólafsdóttur, eða Sirrý eins og hún er jafnan kölluð. Sirrý er komin á eftirlaunaaldur og Sabina, sem var henni til aðstoðar, tekur við og því gætu börnin á Akri fengið að smakka á íslenskum mat undir afrískum áhrifum á næstunni. Þær eru í viðtali við Víkurfréttir.
Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði og bergfræði við Háskóla Íslands, ræðir við Víkurfréttir um eldsumbrot á Reykjanesskaga og við birtum niðurstöður úr nýrri skýrslu Veðurstofu Íslands um náttúruvá á Reykjanesskaganum.
Í blaðinu sýnum við ykkur myndir úr réttum úr Grindavík, segjum frá viðskiptum við Vatnsnesveg og kynnum til leiks nýjan pistlahöfund með lokaorð á baksíðu Víkurfrétta.